Bernando Silva, leikmaður Manchester City, segir að leikmennirnir stefni að því að vinna fjórfalt og verða með því fyrsta enska liðið til að ná því afreki enda góður möguleiki á því þegar það styttist í lok tímabilsins.

Manchester City er þegar búið að tryggja sér deildarbikarstitilinn og komið í undanúrslit enska bikarsins ásamt því að vera að berjast um enska meistaratitilinn og í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri liðsins og leikmenn þess hafa iðulega verið fljótir að skjóta hugmyndina niður þegar þetta hefur verið borið undir þá en Bernando sem skoraði gegn Swansea í bikarnum um helgina virðist ekki óttast pressuna.

„Leikmennirnir vita að þetta tímabil gæti orðið einstakt. Síðasta tímabil var einstakt á sinn hátt þegar við unnum deildina og bættum stigametið og þetta tímabil gæti orðið einstakt þegar við höfum tryggt okkur einn titil og það eru þrír eftir í boði,“ sagði Bernando og hélt áfram

„Við gætum endað með einn titil í lok tímabilsins því þetta verða erfiðir lokamánuðir en okkur langar að skrifa nafn okkar í sögubækurnar.“