Enska úrvalsdeildin er komin af stað og spennandi verður að sjá framvinduna hjá liðinum í deildinni sjálfri. Búist er við því að titilbaráttan verði hörð í ár og að hún verði ekki síðri milli sóknarmanna deildarinnar um gullskóinn.

Gullskóinn hlýtur sá leikmaður sem er markahæstur á tímabili hverju og í ár eru það Son Heung Min, leikmaður Tottenham og Mohamed Salah, leikmaður Liverpool sem hafa titil að verja eftir að hafa skorað 23 mörk hvor á síðasta tímabili.

Son með gullskóinn sinn
Fréttablaðið/GettyImages

Ætla má að samkeppnin um gullskóinn hafi harðnað ef litið er til félagsskiptagluggans í sumar þar sem Manchester City hefur nælt í norska gulldrenginn Erling Braut Haaland.

Haaland fór á kostum með Borussia Dortmund, skoraði 85 mörk í 88 leikjum á sínum tíma með félaginu og hvort hann muni finna markaskóna í Englandi á eftir að koma í ljós, það verður samt sem áður að teljast líklegt.

Erling Braut Haaland er mættur í ensku úrvalsdeildina
Mynd: Manchester City

Liverpool hefur einnig nælt í spennandi sóknarmann í Darwin Nunez sem hefur markanef og gæti gert atlögu að gullskónum.

Hjá Tottenham er einnig að finna Harry Kane sem skoraði 17 mörk í fyrra og gæti allt eð eins bætt þá markaskorun sína á þessu tímabili.

Arsenal hefur sárvantað markaskorara og miðað við undirbúningstímabilið virðist Gabriel Jesus, sem kom til félagsins frá Manchester City, ætla að vera sá maður.

Þessi listi er ekki tæmandi yfir þá leikmenn sem gætu hreppt gullskóinn, hann sýnir hins vegar svart á hvítu hversu hörð samkeppnin um skóinn eftisótta getur orðið.