Bergrún Ósk Aðalsteinsdóttir og Már Gunnarsson voru í dag valin íþróttafólk ársins í árlegu kjöri Íþróttasambands fatlaðra.

ÍF hélt árlegt lokahóf á Hótel Sögu í dag þar sem Bergrún og Már tóku við verðlaununum en þetta er annað árið í röð sem Bergrún hlýtur þessa nafnbót.

Bergrún lenti í fimmta sæti í langstökki á HM fatlaðra sem fór fram í Dubaí í flokki T37 þegar hún stökk 4,27 metra. Með því var hún einum sentímetra frá því að jafna Íslandsmet Matthildar Ylfu Þorsteinsdóttur.

Þá bætti hún besta tíma sinn í 200 metra hlaupi á HM þegar hún kom í mark á 31,3. Fyrr á árinu varð Bergrún heimsmeistari í ungmennaflokki í langstökki og spjótkasti.

Már vann brons í S11, flokki blindra í 100 m baksundi á HM fatlaðra í sundi í London og varð með því eini þátttakandinn frá Norðurlöndunum sem vann til verðlauna á mótinu.

Þá synti Már undir gildandi heimsmeti í 50 m baksundi í 25 m laug á Íslandsmótinu í nóvember.