Berglind Björg Þorvaldsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu er mjög ánægð hvernig til hefur tekist undir stjórn Þorsteins Halldórssonar, landsliðsþjálfara. Íslenska kvennalandsliðið hefur aldrei verið jafn ofarlega á heimslista FIFA og framundan er mikilvægt verkefni gegn Belarús og Hollandi um laust sæti á HM.

Þorsteinn Halldórsson tók við stjórn landsliðsins í upphafi síðasta árs. Berglindi líkar að vinna með honum. „Mér finnst allir hafa náð að aðlagast breytingunum sem komu með honum. Hann hefur komið inn í þetta með látum og gert vel. Við erum bara gríðarlega sáttar með hann.“

Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari Íslands
GettyImages

Sem fyrr segir á Ísland tvo mikilvæga leiki framundan í undakeppni HM í næsta mánuði. Sem stendur er Ísland í öðru sæti síns riðils með fimmtán stig, tveimur stigum á eftir Hollendingum en leik til góða. Það er ljóst að leikurinn við þær appelsínugulu verður hreinn úrslitaleikur um það að komast beint í lokakeppni HM. Liðið sem hafnar í öðru sæti þarf að fara í umspil.

„Ég er gríðarleg spennt. Eftir leikinn gegn Frakklandi hugsuðum við strax að við ætluðum að taka þetta með okkur í þessa tvo leiki. Markmiðið er bara að klára Holland og komast beint á HM,“ segir Berglind. Lokakeppni HM fer fram í Ástralíu og Nýja-Sjálandi næsta sumar.

Í gær bárust þær gleðifréttir að Ísland væri í fjórtánda sæti á nýjum heimslista FIFA. Liðið stekkur upp um þrjú sæti frá síðasta lista og hefur aldrei verið ofar. „Mér finnst þetta geggjað. Þetta sýnir að við erum á réttri leið.“