Framherjinn Berglind Björg Þorvaldsdóttir er í viðræðum við ítalska stórveldið AC Milan um að ganga til liðs við félagið á lánssamning fram á vor.

Sigurður Hlínar Rúnarsson, starfsmaður knattspyrnudeildar Breiðabliks, staðfesti þetta í samtali við Fotbolti.net í dag.

Berglind staðfesti í samtali við Fréttablaðið á dögunum að það væri áhugi erlendis frá og að hún væri á leiðinni út að skoða aðstæður og mun hún ræða við félagið á næstu dögum.

Berglind sem hefur verið einn besti framherji Pepsi Max-deildar kvenna undanfarin ár lék með PSV í Hollandi á láni síðasta vor fram að fyrsta leik Blika í deildinni.