Berglind Björg Þorvaldsdóttir, framherji íslenska landsliðsins, hafði gaman af því að berjast við Wendie Renard, miðvörð og fyrirliða franska landsliðsins í leik Íslands og Frakklands í gær.

Renard hefur verið einn besti miðvörður heims í rúman áratug en Berglind hefur einnig mætt henni með félagsliði þegar hún lék með Le Havre.

„Bara mjög gaman,“ sagði Berglind, aðspurð hvernig var að takast á við Renard eftir leikinn í gær og hélt áfram:

„Ég hef spilað á móti henni áður þegar ég var að spila í Frakklandi. Það er gaman að takast á við þær bestu.“

Hún segir að það hafi verið skrýtin tilfinning í leikslok og að hún hafi ekki áttað sig á því að leikurinn væri búinn, aðspurð út í lokasekúndurnar þegar Dagný Brynjarsdóttir skoraði með síðustu spyrnu leiksins og dómarinn flautaði leikinn ekki aftur á.

„Þetta var skrýtið, við vissum í fyrsta lagi í raun ekkert hvað var gangi. Við fengum vítið en vissum svo ekki að það var búið að flauta leikinn af. Það var ekki fyrr en við sáum Steina labba inn á að við áttuðum okkur á að þetta var búið,“ segir Berglind sem tekur undir að það hafi verið miklar tilfinningar í seinni hálfleik enda tvö mörk dæmd af Frökkum.

„Þetta var mjög skrautlegur leikur. Ég sá ekki þessi tvö mörk sem þær skora, en þegar maður sá þau dæmd af fékk maður tilfinninguna að þetta væri kannski okkar dagur, en svo varð ekki.“

Þegar Berglind var spurð hvað hún tekur út úr mótinu sá hún marga jákvæða punkta hjá íslenska liðinu.

„Heilt yfir fannst mér frammistaða liðsins góð. Varnarleikurinn vupp á tíu, við skoruðum mörk í mótinu og töpuðum ekki leik. Við erum klárlega að fara að byggja ofan á þetta.“