Berglind Björg Þorvaldsdóttir, framherji íslenska kvennalandsliðsins, skoraði tíunda mark sitt fyrir kvennalandsliðið í vikunni þegar hún skoraði eitt af fimm mörkum Íslands í öruggum sigri á Hvíta-Rússlandi.

Þetta var tíunda mark Berglindar í 61. leik sínum fyrir kvennalandsliðið og komst hún upp að hlið Katrínar Ómarsdóttur í 13-14. sæti yfir markahæstu leikmenn kvennalandsliðsins frá upphafi.

Með því varð Eyjamærin um leið tíunda manneskjan til að ná að skora tíu mörk eða fleiri fyrir kvennalandsliðið. Olga Færseth náði þessum áfanga fyrst íslenskra kvenna með marki sínu í 4-1 sigri á Ungverjalandi 14. júní 2003.

Hún er fimmta manneskjan í leikmannahóp Íslands í þessu landsleikjaverkefni sem nær þessum áfanga.

Um leið er Berglind búin að ná að tvöfalda markafjölda eldri bróður síns, Gunnars Heiðars, sem skoraði sjálfur fimm mörk fyrir karlalandsliðið.

Markahæstu leikmenn kvennalandsliðsins frá upphafi:

Margrét Lára Viðarsdóttir - 79 mörk

Hólmfríður Magnúsdóttir - 37 mörk

Dagný Brynjarsdóttir - 34 mörk

Ásthildur Helgadóttir - 23 mörk

Sara Björk Gunnarsdóttir - 22 mörk

Katrín Jónsdóttir - 21 mark

Harpa Þorsteinsdóttir - 19 mörk

Dóra María Lárusdóttir - 18 mörk

Fanndís Friðriksdóttir - 17 mörk

Elín Metta Jensen - 16 mörk

Olga Færseth - 14 mörk

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir - 13 mörk

Katrín Ómarsdóttir - 10 mörk

Berglind Björg Þorvaldsdóttir - 10 mörk