Berglind Björg Þorvalsdóttir, landsliðskona í fótbolta, er á leið til norska úrvalsdeildarliðsins Brann.

Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu Hammarby en Berglind Björg hefur leikið með sænska liðinu síðan í ágúst á síðasta ári.

Berglind Björg kom til Hammarby frá franska félaginu Le Havre en hún skoraði eitt mark í þeim átta leikjum sem hún spilaði fyrir Hammarby.

„Hammarby og Brann hafa komist að samkomulagi um félagaskipti Berglindar Bjargar Þorvaldsdóttur. Berglind Björg fékk gott tilboð frá Brann og hana langaði að fara þangað.

Samningar hafa tekist milli Hammarby og Brann og við óskum Berglindi góðs gengis á nýjum vettvangi," segir Johan Lager, íþróttastjóri Hammarby í samtali við heimasiðu félagsins.

Brann varð norskur meistari á síðasta keppnistímabili en þá lék liðið reyndar undir merkjum IL Sandviken.