Berglind Björg Þorvaldsdóttir fékk sannkallaða draumabyrun hjá ítalska stórliðinu AC Milan þegar hún skoraði tvö marka liðsins í 3-2 sigri á móti Roma í ítölsku efstu deildinni í knattspyrnu kvenna í gær. „Síðustu dagar hafa verið mjög viðburðarríkir og ég er frekar þreytt núna. Ég er hins vegar mjög ánægð með þessa byrjun og ánægð með þær mótttökur sem ég hef fengið i Mílanó fyrstu dagana hér," segir Berglind Björg í samtali við Fréttablaðið.

„Ég kom hingað helgina áður en ég skrifaði undir og skoðaði aðstæður. Þá fór ég út að borða með þjálfaranum og eiginkonu hans og ég fann það strax þar að þau voru mjög spennt fyrir því að fá mig hingað. Fyrstu æfingarnar eftir að ég kom fóru svo að miklu leyti í það að útskýra fyrir mér taktíkina hjá liðinu og það hlutverk sem mér var ætlað þar. Ég var eiginlega 100% viss um að ég myndi byrja leikinn á móti Roma og fékk það svo staðfest á leikdegi," segir framherjinn um fyrstu dagana hjá nýju liði.

„Við erum með stóran framherja sem heitir Pamela Begic og er slóvensk og svo ítalska landsliðsframherjinn Valentinu Giacinti sem er teknísk og snögg. Planið í þessum leik var að ég og Giacinti myndum vinna í kringum Begic sem fengi boltann í lappir og ynni boltann í loftinu. Við áttum að hlaupa í svæðin bakvið vörnina og ógna þannig. Við getum svo líka spilað með mig og Begic frammi og Giacinti þá í tíunni. Það er gaman að fá að prufa að spila aðra stöðu en ég hef gert með Breiðabliki og landsliðinu," segir hún um hlutverk sitt í liðinu.

Nágrannaslagur við Inter Milan handan við hornið

„Leikstíllinn hérna virðist líka vera ólíkur því sem ég á að venjast heima. Það er ekki jafn mikil áhersla á að sækja upp kantana hérna og lagt upp með að halda boltanum á jörðinni og ráðast á miðja vörn andstæðingsins. Það er erfitt að meta gæðamuninn en umgjörðin í kringum leikina var frábær. Það kom slatti af fólki að horfa á leikinn í gær sem var spilaður í hádeginu á mánudegi. Ég fann það strax að það er mikil ástríða fyrir liðinu hérna," segir Berglind.

„Eftir leik logaði svo síminn og þar var að finna bæði jákvæð skilaboð og neikvæð. Stuðningsmenn AC Milan buðu mig hjartanlega velkomna og voru mjög peppuð á meðan Roma-menn voru ekki jafn sáttir. Þeir vildu meina að ég hefði svindlað með því að taka boltann með hendinni í fyrra markinu sem ég skoraði sem er bara alls ekki rétt. Einn tjáði mér að ég var sá allra mesti aumingi og svindlari sem hann hefði séð spila. Það var mjög hressandi," segir Eyjamærin létt.

„Fram undan er svo tveir hörkuleikir áður en við mætum Inter Milan í nágrannaslag. í byrjun febrúar. Mér er sagt að á þá leiki mæti alla jafna um það bil 5000 manns og stemmingin sé tryllt. Ég er mjög spennt fyrir þeim leik og get eiginlega ekki beðið eftir að spila í þeim aðstæðum. Mér líst mjög vel á allt hérna. Ég bý enn á hóteli og það væsir ekkert um mig þar. Á næstu dögum fæ ég svo fína íbúð sem ég mun búa í," segir Berglind um framhaldið í Mílanóborg.