Mörg félög í ensku úrvalsdeildinni vilja að Manchester City verði sparkað úr deildinni verði félagið sakfellt í ákærum er snúa að mögulegum brotum á reglum um fjármál félaga.
Frá þessu greinir Sky Sports en í gær var greint frá því að enska úrvalsdeildin hefði ákært Manchester City í yfir 100 liðum en deildin sakar félagið um að fara á svig við reglur um fjármál félaga.
Kaveh Solhekol segir þau félög sem hafi beitt hvað mestum þrýstingi á ensku úrvalsdeildina, um að gera eitthvað í málinu áður en ákærurnar birtust í gær, hafa verið á meðal sex stærstu félaga deildarinnar.
Í yfirlýsingu frá Manchester City í gær sagðist félagið vera hissa á ákærunum, sem snúa að meintum brotum á árunum 2009-2018.
Harðasta refsingin sem enska úrvalsdeildin gæti gripið til í þessu máli, fari svo að Manchester City verði sakfellt, væri að sparka félaginu úr deildinni og segist Sky Sports hafa heimildir fyrir því að það væri ekkert sem myndi skylda English Football League, umsjónaraðila neðri deildanna til þess að taka við Manchester City .
Kaveh, blaðamaður Sky Sports, segir tilfinninguna innan ensku úrvalsdeildarinnar vera á þá leið að sú lausn að taka titlana sem Manchester City vann á umræddum tímabilum yrði merkingarlaus. Slík lausn myndi aðeins skapa glundroða og þá segir hann umræðuna um mögulega peningasekt vera á þá leið að hún myndi ekki hafa mikil áhrif.
Það muni ekki vera mikil samúð í garð Manchester City ef félagið verður sakfellt í einhverjum af þessum ákæruliðum. Félagið hefur orðið Englandsmeistari sex sinnum á síðustu ellefu árum.
Kieran Maguire, sérfræðingur um fótboltafjármál telur ólíklegt að það fari svo að enska úrvalsdeildarfélagið Manchester City verði fellt niður um deild fari svo að félagið verði sakfellt í ákæru ensku úrvalsdeildarinnar.
„Það yrði erfitt að réttlæta ákvörðun um að fella félagið niður um deildir nema sýnt væri fram á kerfisbundnar tilraunar til þess að rangfæra fjármál félagsins,“ sagði Kieran Maguire, sérfræðingur um fótboltafjármal í samtali við BBC Radio.