Norrköping seldi í dag Arnór Sigurðsson til CSKA Moskvu fyrir metverð.

Arnór sló í gegn með Norrköping í sænsku úrvalsdeildinni í sumar og frammistaða hans vakti athygli rússneska stórliðsins.

Arnór gekk í raðir Norrköping í fyrra eftir ábendingu frá öðrum Skagamanni, Stefáni Þór Þórðarsyni.

Stefán lék með Norrköping á árunum 2005-07 og svo aftur 2009. Hann er í miklum metum hjá félaginu og heldur áfram að hjálpa því þótt hann sé búinn að leggja skóna á hilluna.

„Þökk sé hans stóra Norrköping-hjarta endaði Arnór hjá okkur. Stefán vill að bestu íslensku leikmennirnir fari til Norrköping,“ segir Peter Hunt, forseti Norrköping, á heimasíðu félagsins.

Hunt bætir við að fulltrúar Norrköping komi til Íslands í næstu viku til að hitta Stefán og skoða leikmenn.

Norrköping hefur selt tvo leikmenn til rússneskra félaga í sumar. Jón Guðni Fjóluson var seldur til Krasnodar og svo fór Arnór til CSKA Moskvu eins og áður sagði.