Evert­on fær Arsenal í heimsókn í lokaumferð 15 umferðar ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla í kvöld. Fyrir leikinn er Arsenal í sjöunda sæti deildarinnar með 23 stig en Everton í því 16. með sín 15 stig.

Mikil pressa er á Rafa Benítez, knatt­spyrn­u­stjóra Everton, fyrir leik kvöldsins en fjölmargir stuðningsmenn Everton fóru snemma af vellinum þegar Everton tapaði 4-1 í nágrannaslag sínum við Liverpool um þar síðustu helgi.

Þrátt fyrir að Everton hafi ekki haft betur í síðustu átta deildarleikjum sínum, þar sem liðið hefur beðið ósigur sex sinnum og gert tvö jafntefli nýtur Benitez enn trausts hjá eigendum og stjórnarmönnum félagsins.

Slík traustsyfirlýsing er aftur á móti gjarnan undanfari þess að knattspyrnustjórar eru látnir taka pokann sinn.

Forráðamenn Everton brugðust hins vegar við slæmu gengi liðsins með því að láta Marcel Brands, yfirmann knattspyrnumála taka pokann sinn.

Brands hefur sinnt því starfi síðan árið 2018 en hann var yfirmaður Grétars Rafns Steinssonar.

Benitez, hefur í viðtölum við fjölmiðla í undanfara leiksins í kvöld, rætt um félagaskiptagluggan í janúar og þörfina á því að styrkja leikmannahópinn.

Spurning er hvort að Benitez muni hafa mest um það að segja hvaða stefna verður tekin í þeim leikmannakaupum eða ráðinn verði nýr einstaklingur sem mun hafa yfirumsjón með þeim líkt og Brands gerði.