Karlalandslið Belgíu í knattspyrnu leikur nú sinn lokaleik í riðlakeppni Heimsmeistaramótsins í knattspyrnu sem fer fram í Katar þessa dagana og freista þess að tryggja sér sæti í 16-liða úrslitum mótsins.

Það hefur gustað um liðið og sögusagnir um ósætti innan leikmannahópsins hafa verið háværar. Þá hefur frammistaða liðsins á mótinu til þessa ýtt undir sögusagnirnar en leikmannahópur Belgíu svaraði fyrir sig fyrir leik dagsins gegn Króatíu með táknrænum hætti.

Sjá mátti allan leikmannahóp Belgíu mynda saman hring og halda liðsfund fyrir framan ljósmyndara fjölmiðla sem þeir saka um lygar og rógburð um leikmenn og þjálfarateymi landsliðsins.

Það er David Ornstein, blaðamaður The Athletic sem vekur athygli á þessu í færslu á samfélagsmiðlinum Twitter.