Bjarki Pétursson, nýkrýndur Íslandsmeistari í golfi, brunaði í Stykkishólm eftir Íslandsmótið, sótti kærustuna sína og síðan heim í Borgarnes þar sem hann pantaði sér pitsu og drakk Pepsi með. Borgnesingar tóku vel á móti drengnum sínum og þegar hann keyrði inn í bæinn var búið að koma skiltum fyrir með hamingjuóskum fyrir titilinn.

Guðrún Brá Björgvinsdóttir, Íslandsmeistari kvenna í golfi, segist ekki vera farin að horfa á met Karenar Sævarsdóttur sem vann Íslandsmótið í golfi átta sinnum í röð en Guðrún vann Íslandsmótið núna í þriðja sinn í röð. Hún vill frekar bæta titlum við til að skáka föður sínum, Björgvini Sigurbergssyni, sem á fjóra Íslandsmeistaratitla.

„Ég er virkilega stoltur af sjálfum mér og mínu fólki sem vinnur með mér og það var ánægjuleg stund að landa stóra titlinum,“ segir Bjarki. Áhugamenn um rauðar tölur á skorkorti fengu sex slíkar á seinni níu hjá Bjarka – sem þýðir að hann fór holurnar undir pari. „Ég fór í smá naflaskoðun fyrir nokkrum vikum varðandi púttin. Ég hef yfirleitt getað slegið vel og ég og þjálfari minn unnum vel í ákveðnum hlutum og það má segja að pútterinn hafi verið heitur.

Bjarki er úr Borgarnesi en spilar fyrir GKG. Ástæðan er einföld. Þjálfarinn hans er í GKG. „Síðan 2014 hef ég verið að elta þjálfarann minn, Arnar Má Ólafsson, en ég bý í Borgarnesi og er þaðan og er í golfklúbbnum þar. Ef ég mætti ráða væri þetta sigur fyrir GKG og GB til samans,“ segir hann stoltur.

Borgnesingar voru stoltir af sínum Íslandsmeistara og var búið að koma upp skiltum þar sem Bjarka var óskað til hamingju. „Ég átti ekki alveg von á einhverjum skiltum þegar ég keyrði heim. Ég er ánægður með skilaboðin sem mér bárust fyrir að vinna, frá fullt af fólki sem ég er ekkert endilega að heilsa í búðinni. Það var tilbúið að senda mér falleg skilaboð og óska mér góðs gengis og ég kann mjög vel að meta stuðninginn sem ég fékk frá Borgnesingum. Það er gaman að finna að fólk hefur trú á manni.“

Hann segir að óvissa sé með framhaldið hjá sér eins og hjá flestu afreksíþróttafólki. „Það er erfitt að skipuleggja sig. Ég kom heim frá Spáni í mars og fékk góða vinnu hjá bróður pabba, Heimi Sverrissyni, og er að reyna að safna pening, ef veiran leyfir einhverjar íþróttir á næsta ári. Ég er að smíða palla og setja upp eldhús. Mjög fjölbreytt og skemmtilegt.“

Guðrún Brá og Bjarki eru þakklát fyrir alla þá sjálfboðaliða sem komu og aðstoðuðu en eru einnig bæði með áhyggjur af framhaldinu vegna COVID-ástandsins.

Setti verðlaunapeninginn sjálf um hálsinn á sér

Guðrún Brá Björgvinsdóttir, úr GR, háði þriggja holu umspil við Ragnhildi Kristinsdóttur. Þær stöllur voru jafnar eftir 72 holur og því var farið í umspil þar sem Guðrún hafði betur. Hún jafnaði Ragnhildi á síðustu holunni en gríðarleg spenna var í kvennaflokki. „Þetta var ótrúlega spennandi allan daginn og mjög skemmtilegt. Þetta var mjög furðulegt mót og það var örlítið furðulegt að setja verðlaunapeninginn sjálf um hálsinn á mér. Ég er samt ótrúlega þakklát fyrir að mótið fór fram og allir sjálfboðaliðarnir gerðu okkur kleift að halda mótið.“

Guðrún var að vinna Íslandsmótið í þriðja sinn en karl faðir hennar vann Íslandsmótið fjórum sinnum. Karen Sævarsdóttir vann mótið átta sinnum í röð og segist Guðrún frekar horfa til titla föður síns en mets Karenar. „Ég byrja allavega þar,“ segir hún létt.

Hún er eins og aðrir afreksíþróttamenn í töluverðu limbói vegna ástandsins í heiminum. „Þetta er búið að vera erfitt og þessi óvissa er búin að vera erfið. Ef maður vissi að allt yrði eðlilegt á næsta ári væri allt strax auðveldara en það er ekki þannig. Ef allt fer eins og best verður á kosið fer ég út eftir tvær vikur og næ fjórum til fimm mótum. Svo verð ég bara heima í vetur og geri mig klára fyrir næsta vetur. En maður vill bara fara út ef allt er í lagi.

Maður verður að hugsa svolítið um sjálfan sig og þetta er ekkert lengur þannig að maður hoppi bara út í eitt golfmót. Ég er ekki tilbúin að leggja heilsuna að veði.“