Liverpool og Manchester United gerðu markalaust jafntefli þegar liðin mættust í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla á Anfield í dag.

Bruno Fernandes og Paul Pogba komust næst því að skora fyrir Manchester United en Alisson Becker kom í veg fyrir það að þeir skoruðu.

Roberto Firmino fékk besta færi Liverpool en honum brást bogalistinn og Thiago Alcantara átti fínt skot utan vítateigs en David de Gea varði það.

Liverpool-menn voru ekki sáttir við Paul Tierney, dómara leiksins, sem flautaði fyrri hálfleikinn af í þann mund sem Sadio Mané var að sleppa í gegn nokkrum sekúndum áður en uppgefinn uppbótartími var liðinn.

Manchester United er þar af leiðandi ennþá með þriggja stiga forskot á toppi deildarinnar. Liverpool hefur nú spilað fjóra deildarleiki í röð án sigurs í fyrsta skipti síðan árið 2017.