Bayern München tryggði sér í dag þýska meistaratitilinn í knattspyrnu karla með sannfærandi 5-1 sigri sínum gegn Eintracht Frankfurt í lokaumferð deildarinnar á Allianz Arena í dag.

Kingsley Coman, Renato Sanchez og David Alaba skoruðu fyrstu þrjú mörk Bayern München í leiknum. Franck Ribery og Arjen Robben sem spiluðu sinn síðasta leik fyrir liðið í dag voru svo á skotskóum.

Rafinha lék líkt og Ribery og Robben kveðjuleik sinn fyrir Bayern München í þessum leik. Bayern München endaði með tveimur stigum meira en Borussia Dortmund sem varð í öðru sæti.

Þetta var í 29. skipti sem Bayern München stendur uppi sem sigurvegari í þýsku efstu deildinni í knattspyrnu en liðið er það sigursælasta í sögunni.

Bayern München getur svo unnið tvöfalt og bætt 19. bikarmeistaratitlinum í safn sitt þegar liðið mætir RB Leipzig í úrslitaleik bikarkeppninnar eftir slétta viku.

Ekkert annað lið hefur unnið þýska bikarinn í knattspyrnu karla jafn oft og Bayern München.