Josep Maria Bartomeu, sem lét af störfum sem for­seti spænska fé­lags­ins Barcelona í október síðastliðnum eftir ásakanir um að hafa óhreint mjöl í pokahorninu, hefur verið látinn laus úr varðhaldi eftir að hafa verið handtekinn á mánudaginn var, eft­ir að hafa dvalið eina nótt í fang­elsi.

Bartomeu var í haldi í eina nótt en hann var færður til yfirheyrslu, ásamt fyrr­ver­andi aðstoðarmanni sín­um, Jaume Mas­fer­rer, Oscar Grau, fram­kvæmda­stjóra Barcelona, og Rom­an Gomez Pont, yf­ir­lögrfæðingi félagsins.

Handtökurnar voru hluti af rannsókn lögregluyfirvalda í Katalóníu á meint­um spill­ing­ar­mál­um inn­an fé­lags­ins. Þá er meint samfélagsmiðlaherferð Bartomeu gegn núverandi og fyrrverandi leikmönnum liðsins einnig til rannsóknar.

Fram kemur í spænskum fjölmiðlum að Bartomeu og Mas­fer­rer hafi ákveðið að nýta réttinn til þess að tjá sig ekki um sakarefni málsins þegar þeir voru yfirheyrðir af lögreglunni.