Hinn umdeildi fráfarandi forseti Barcelona, Josep Maria Bartomeu, segir að síðasta aðgerð sín í stjórn félagsins hafi verið að samþykkja aðild Börsunga að nýrri evrópskri ofurdeild.

Bartomeu greindi frá þessu í sömu ræðu og hann tilkynnti að hann myndi stíga frá borði. Þá hefur Barcelona stutt tillögu FIFA um breytingu á heimsmeistarakeppni félagsliða.

Um árabil hafa stærstu félög Evrópu rætt sín á milli möguleikann að stofna nýja deild án aðkomu UEFA. Með því telja félögin að þau geti tryggt sér stærri sneið að kökunni þegar kemur að dreifingu peningsins sem kemur inn á borð UEFA fyrir Meistaradeildar Evrópu.

Á dögunum kom í ljós að Manchester United og Liverpool væru í samstarfi við FIFA búin að teikna upp mynd hvernig keppnin gæti litið út. Þá var búið að semja við fjárfestingabanka um stofnlán til að setja keppnina á laggirnar.

Bartomeu sagði af sér sem forseti stjórnar Barcelona í gær eftir sex ára dvöl í stjórn félagsins.

Á þeim tíma hefur árangurinn dalað og hafa stuðningsmenn ítrekað kallað eftir brottrekstri hans, sérstaklega undanfarna átján mánuði.

Þá hafa leikmenn stigið fram og kvartað undan stjórnarháttum innan félagsins. Frægt er þegar Lionel Messi reyndi að yfirgefa félagið í sumar án árangurs eftir deilu við stjórn félagsins.

Forseti spænsku deildarkeppninnar, Javier Tebas, gagnrýndi tilkynningu Bartomeu á Twitter og sagði þetta sorglegan endi á tíma forseta sem hefði gert mörg mistök að undanförnu.