Lionel Messi skoraði þrennu þegar Barcelona tryggði sér Spánarmeistaratitilinn með 2-4 sigri á Deportivo La Coruna á Riazor í kvöld. Með tapinu féllu heimamenn.

Þetta er í sjöunda sinn á síðustu 10 árum sem Börsungar verða Spánarmeistarar og í 25. sinn alls.

Barcelona er taplaust í spænsku úrvalsdeildinni á tímabilinu. Liðið hefur leikið 34 leiki, unnið 26 og gert átta jafntefli.

Andrés Iniesta, sem gaf það út á föstudaginn að hann myndi yfirgefa Barcelona í sumar, kom inn á undir lokin. Þetta er í níunda sinn sem hann verður spænskur meistari með Barcelona.