Aron Pálmarsson skoraði tvö mörk fyrir Barcelona þegar liðið lagði franska liðið Montpellier að velli, 37-30, í undanúrslitum í heimsmeistaramóti félagsliða í handbolta karla sem fram fer í Doha í Katar þessa dagana.

Barcelona sem er sigursælasta liðið í sögu mótsins og ríkjandi meistari mætir annað hvort Bjarka Má Elíssyni og samherjum hans hjá þýska liðinu Füchse Berlin eða Al Sadd frá Katar í úrslitum mótsins.

Füchse Berlin og Al Sadd mætast í seinni undanúrslitaleiknum seinna í dag, en þýska liðið hefur tvisvar sinnum borið sigur úr býtum á mótinu. 

Þá mættust Barcelona og Füchse Berlin í úrslitaleik mótsins á síðasta keppnistímabili og því gætu sömu lið mæst í úrslitum á nýjan leik þegar leikið verður til úrslita á föstudaginn kemur.