Börsungar unnu 2-1 sigur á Valencia í spænsku úrvalsdeildinni í dag og stefna hraðbyri að meistaratitlinum en þeir þurfa átta stig úr síðustu sex leikjunum til að endurheimta titilinn eftir ársdvöl í Madríd.

Börsungar mættu særðir til leiks eftir að hafa fallið úr leik í Meistaradeild Evrópu gegn Roma í vikunni en mótherjar dagsins voru Valencia sem eru í 3. sæti deildarinnar.

Philippe Coutinho lagði upp mörk Barcelona í dag fyrir Luis Suarez og Samuel Umtiti en Daniel Parejo náði að klóra í bakkann fyrir Valencia á lokamínútum leiksins.

Var þetta 39. leikur Barcelona í röð án ósigurs í deildinni sem bætti 38 ára gamalt met Real Sociedad frá árinu 1980 en lengsta hrina leikja án taps hjá Barcelona fyrir þetta var 31 leikur.

Þegar Börsungar eiga sex leiki eftir eiga þeir enn möguleika á því að fara í gegnum tímabilið ósigraðir en stærsta prófið verður þegar þeir mæta Real Madrid þann 5. maí næstkomandi.