Liðin sem börðust um bikarmeistaratitilinn í knattspyrnu kvenna um síðastliðna helgi mæta í kvöld toppliðum Pepsi Max-deildarinnar en með þeim leikjum lýkur 14. umferðinni.

Valur sem trónir á toppi deildarinnar með 37 stig sækir nýkrýnda bikarmeistara Selfoss heim en heimakonur sitja í fjórða sæti deildarinnar með 22 stig.

KR sem laut í gras fyrir Selfossi í bikarúrslitunum fær svo Breiðablik sem er í eltingaleik við Val í heimsókn á Meistaravelli. Breiðablik er tveimur stigum á eftir Val fyrir leiki kvöldsins.

Vesturbæingar eru hins vegar í harðri fallbaráttu þar sem liðið er í sjöunda sæti með 13 stig og er þremur stigum á undan Keflavík sem er í efra fallsætinu eins og sakir standa og sex stigum frá HK/Víkingi sem vermir botnsætið.