Bandaríska knattspyrnusambandið hefur samþykkt að aflétta banni sem sambandið setti á árið 2017 sem kvað á um að leikmönnum og forráðamönnum liða skuli standa uppréttir þegar bandaríski þjóðsöngurinn er leikinn fyrir leiki á vegum sambandsins. Bannið var sett til þess að koma í veg fyrir að leikmenn og forráðamenn sýndu stuðning við baráttu gegn lögregluofbeldi gegn svörtu fólki og hvers kyns kynþáttafordómum með því að krjúpa á kné á meðan þjóðsöngurinn var spilaður.

NFL-leikmaðurinn Colin Kaepernick var forsprakki þessara aðgerða og það vakti mikla athygli þegar Megan Rapinoe neitaði að hlýða fyrrgreindu banni fyrir leiki bandaríska kvennalandsliðsins í knattspyrnu.

„Það voru mistök af okkar hálfu að meina fólki að veita þessu mikilvæga baráttumáli lið með því að freista þess að meina þeim að framkvæma táknrænar aðgerðir sína. Við styðjum baráttuna Black Lives Matter og hvers kyns mótmæli gegn kynþáttafordómum. Við biðjumst afsökunar á fyrri afstöðu okkar, einkum og sér í lagi beinum við afsökunarbeiðninni að svörtu íþróttafólki, svörtum forráðamönnum og svörtu stuðningsfólki," segir í yfirlýsingu frá bandaríska knattspyrnusambandinu.

Forkólfar í íþróttalífinu bæði í alþjóðasamböndum og í Bandaríkjunum eru að viðurkenna það þessa dagana að stefna þeirra undanfarin ár hafi verið röng. Þannig sagði Roger Goodell, framkvæmdastjóri NFL, það í síðustu að það hefðu verið mistök að hlusta ekki betur á það sem leikmenn deildarinnar hefðu að segja í málefnum minnihlutahópa. Betur hefði farið á því að leyfa mótmælin og styðja þau og það verði gert í framhaldinu.

Þá hefur Gianni Infantino, forseti alþjóða knattspyrnusambandsins, FIFA, beðið aðildarsambönd FIFA um að beita almennri skynsemi þegar kemur að því að refsa leikmönnum eða þeim sem koma að knattspyrnunni á einhvern hátt fyrir að tjá pólitíska, trúarlegar eða persónulegar skoðanir sínar á mönnum og málefnum á knattspyrnuvöllum eða á opinberum vettvangi fyrir eða eftir leiki.