Alþjóða íþróttadómstóllinn (CAS) kvað í morgunsárið upp úrskurð sinn í áfrýjun Manchester City á tveggja ára banni frá þátttöku frá Evrópukeppnum sem UEFA úrskurðaði félagið í fyrr á þessu ári.

Þar var banni Manchester City aflétt auk þess sem sektin sem UEFA úrskurðaði félagið til þess að greiða var minnkuð úr 30 milljón evrum í 10 milljón evrur.

Háttsemin Manchester City sem fjárhagsnefnd UEFA refsaði enska félagið fyrir fólust í grófum dráttum í því að of háar styrkveitingar eiganda Manchester City hafi runnið í bókhald félagsins í formi auglýsinga- og styrktarsamninga.

Nú hefur þessari ákvörðun verið snúið við og ljóst að Manchester City mun leika í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð. Manchester City situr í öðru sæti ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla með 72 stig og getur ekki hafnað neðar. Efstu fjögur lið deildarinnar munu fara í Meistaradeildina en Liverpool mun fylgja Manchester City í Meistaradeildina.

Baráttan um sætin tvö sem enn eru í boði í Meistaradeildinni er æsispennandi. Svo gæti reyndar farið að fimmta sætið muni veita þátttökurétt í Meistaradeildinni, fari svo að Manchester City standi uppi sem sigurvegari í keppninni i ágúst næstkomandi.

Manchester City etur kappi við Real Madrid í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar en staðan eftir fyrri leik liðanna á Santiago Bernabéu er 2-1 Manchester City í vil. Það lið sem hefur betur í þeirri viðureign mætir svo Juventus eða Lyon í átta liða úrslitunum.