Þýska knattspyrnufélagið Nuremberg mun ekki geta spilað leiki sína að kvöldi til á næstunni eftir að borgarráð Nuremberg tók ákvörðun um að takmarka noktun flóðljósa í borginni þar sem nú ríkir orkukrísa í Þýskalandi.

Innrás Rússa í Úkraínu hefur séð til þess að orkuverð í heiminum, í þeim löndum sem treysta á orku frá Rússlandi, hefur rokið upp.

Nú styttist í veturinn og því hefur borgarráð Nuremberg tekið þessa ákvörðun í tilraun sinni til þess að spara orku fyrir árstíðina.

Auk þess að banna notkun flóðljósa eftir ákveðinn tíma hefur verið ákveðið að skrúfa fyrir hitakerfi á knattspyrnuvelli Nuremberg.

Þýska knattspyrnusambandið á eftir að samþykkja þessi áform Nuremberg en knattspyrnulið borgarinnar mun ekki geta leikið leiki á sínum heimavelli sem hejast klukkan 20:30 eða seinna.