Aron Guðmundsson
Laugardagur 26. nóvember 2022
09.00 GMT

Margir leik­menn eru á barmi þess að tryggja sér sæti í lands­liðinu en ljóst að ein­hverjir sitja eftir með sárt ennið. Einar Örn Jóns­son, í­þrótta­frétta­maður RÚV og fyrrum at­vinnu- og lands­liðs­maður í hand­bolta fer yfir sviðið með Frétta­blaðinu og þá leik­menn sem banka fast á dyrnar hjá Guð­mundi.

,,Ég held að Guð­mundur hafi aldrei haft stærri haus­verk heldur en akkúrat núna þegar kemur að því að velja lands­liðs­hópinn fyrir komandi HM,“ segir Einar Örn. ,,Það verða örugg­lega svona fjórir til fimm leik­menn fyrir utan hóp sem myndi hver um sig sæma sig vel innan hópsins. Ég vor­kenni Guð­mundi að þurfa skera þetta svona niður.“

Guð­mundur velur 18 manna lands­liðs­hóp en getur þó tekið fleiri með til Sví­þjóðar ef vilji stendur til og skipt leik­mönnum inn og út úr þeim hóp eins og hann vill. Hins vegar geta bara 16 verið á skýrslu í hverjum leik.

Í gær var svo tilkynnt hvaða 35 leikmenn kæmu til greina í huga Guðmundar fyrir komandi heimsmeistaramót en þann hóp þarf að skera rækilega niður. Þeir leikmenn sem taldir eru upp í þessari grein eru allir í 35 manna hópi Guðmundar.

Þeir reyna nú að heilla hann upp úr skónum og tryggja sér farmiða á HM 2023 í Svíþjóð og Póllandi.

Sti­ven Tobar Valencia, vinstri horna­maður (Valur):

Vinstri horna­maður Vals­manna sem hefur slegið í gegn, bæði hér heima og í Evrópu­deildinni.

,,Það sem vinnur að­eins á móti og á sama hátt með honum er að hann spilar hér heima,“ segir Einar Örn um Sti­ven. ,,Hann er fyrir augunum á okkur alla daga, við sjáum reglu­lega hvað hann getur en á sama tíma sjáum við leik­menn í sömu stöðu og hann vera standa sig vel sem at­vinnu­menn, það vinnur með þeim.“

Stiven Tobar hefur vakið mikla og verðskuldaða athygli undanfarið
Fréttablaðið/Eyþór Árnason

Einar á erfitt með að sjá hvað muni ráða úr­slitum hjá Guð­mundi hvað vinstra hornið varðar.

,,Bjarki Már Elís­son er klár­lega horna­maður númer eitt en það þarf ein­hvern með honum. Sti­ven býr yfir mikilli í­þrótta­mennsku og skrokk sem mjög fáir hafa. Hann er miklu fljótari en flestir, stekkur hærra en flestir og er sterkari en flestir í þessari stöðu. Þá vinnur það með honum að hann er í hrika­lega flottu leik­formi og er að spila ó­trú­lega vel.

Þá komum við aftur á móti að því að aðrir kandídatar í þessa stöðu eru að spila á móti sterkari and­stæðingum í hverri einustu viku.“

Aðrir sem koma til greina í sömu stöðu: Orri Freyr Þor­kels­son (Elverum), Hákon Daði Styrmis­son (Gum­mers­bach)

Haukur Þrastar­son, miðju­maður (Ki­elce)

Það var röð hluta sem or­sakaði það að hann var ekki í síðasta lands­liðs­hóp.

,,Hann á klár­lega heima í lands­liðs­hópnum,“ segir Einar. ,,Fyrir mitt leiti ætti Haukur að vera eitt af fyrstu nöfnunum á blað í þessum HM-hóp eftir að byrjunar­liðið er sett niður.“

Haukur Þrastarson hefur verið að standa sig frábærlega hjá Kielce

Haukur var á sínum tíma efni­legasti leik­maður Evrópu en hefur á sínum ferli þurft að glíma við miklar á­skoranir, meðal annars erfið meiðsli. ,,Meiðslin settu vissu­lega strik í reikninginn en við þurfum að fá Hauk inn og hafa hann í stóru hlut­verki í lands­liðinu. Þá verður hann klár­lega burðar­ás í lands­liðinu næstu 10-15 ár.

Það er mjög mikil­vægt að fá hann inn í lands­liðið til þess að styðja við Aron, Gísla Þor­geir og Elvar, vera hluti af fyrstu rót­eringu liðsins.

Haukur hefur hæfi­leika sem enginn annar hand­bolta­maður hefur. Ef við förum á mis við þá hæfi­leika sem hann hefur sem leik­maður þá eru það mjög al­var­leg mis­tök. Ekki bara fyrir þetta mót heldur fyrir fram­tíðina.“

Óðinn Þór Rík­harðs­son, hægri horna­maður (Kadet­ten)

,,Hann er 100% í þessari bar­áttu,“ segir Einar um Óðinn. ,,Við sáum það á síðasta stór­móti hvað það getur verið hættu­legt að spila með einn horna­mann í gegnum heilt mót. Ég gerði það sjálfur tvisvar á sínum tíma og það skildi bara eftir varan­leg sár á mínum líkama. Það er mjög hættu­legt að fara með einn horna­mann inn í heilt mót, sér í lagi ef við ætlum okkur stóra hluti.“

Það verði að hafa góðan hægri horna­mann með Sig­valda í hópnum. ,,Það er Óðinn. Með því getum við gefið Sig­valda korter til tuttugu mínútur í pásu í gegnum hvern leik í riðla­keppninni, ekki bara til að vera til vara ef svo kynni að Sig­valdi skyldi meiðast, heldur til að gefa honum pásu svo við eigum hann heilan í gegnum mótið.“

Óðinn Þór Ríkharðsson á möguleika á sæti á HM 2023

Örv­hentu skytturnar: Teitur Örn Einars­son (Flens­burg) og Kristján Örn Kristjáns­son (PAUC)

Ómar Ingi Magnús­son og Viggó Kristjáns­son virðast á undan Teit og Kristjáni í stöðu hægri skyttu og út af þessari of­gnótt örv­hentra skytta sem við höfum þá mun, að öllum líkindum, ein­hver þeirra vera fyrir utan hóp til að byrja með að mati Einars Arnar.

,,Þetta er senni­lega erfiðasta á­kvörðunin sem Guð­mundur stendur frammi fyrir. Hver af þessum fjórum örv­hentu skyttum á að vera fyrir utan hóp þegar kemur að fyrsta leik.

Teitur Örn Einarsson fór illa með Valsara á dögunum
Fréttablaðið/GettyImages

Þeir eru allir að spila vel, allir að spila stóra rullu í stórum at­vinnu­manna­liðum og búa allir yfir mis­munandi vopnum í sínu vopna­búri.

Ómar er klár­lega númer eitt og svo ertu með þrjá fyrir aftan hann í goggunar­röðinni sem eru allir númer tvö í röðinni. Þetta fer bara eftir því hvað þú, í þessu til­felli Guð­mundur, vill fá í hverjum leik fyrir sig.

Þá geturðu lent í því að missa af ein­hverju með því að skilja ein­hvern þeirra eftir fyrir utan hóp. En á móti kemur færðu eitt­hvað stór­kost­legt frá þeim sem verða í hóp.“

Kristján Örn Kristjánsson, betur þekktur sem Donni
Mynd: HSÍ

Mat Fréttablaðsins á því hverjir séu öruggir í landsliðið eins og staðan er núna:

Björgvin Páll Gústavsson (Valur)

Viktor Gísli Hallgrímsson (HBC Nantes)

Ágúst Elí Björgvinsson (Ribe-Esbjerg)

Bjarki Már Elísson (Veszprem)

Aron Pálmarsson (Aalborg)

Elvar Örn Jónsson (MT Melsungen)

Gísli Þorgeir Kristjánsson (Magdeburg)

Janus Daði Smárason (Kolstad)

Elvar Ásgeirsson (Ribe-Esbjerg)

Ómar Ingi Magnússon (Magdeburg)

Viggó Kristjánsson (DHfK Leipzig)

Sigvaldi Björn Guðjónsson (Kolstad)

Elliði Snær Viðarsson (Gummersbach)

Ýmir Örn Gíslason (Rhein-Neckar Löwen)

Arnar Freyr Arnarsson (Melsungen)

Athugasemdir