Mario Balotelli, framherjinn skrautlegi, samþykkti í gær að snúa aftur til franska félagsins Nice en hann hafnaði í sumar tilboði frá kínversku félagi.

Eftir að hafa verið leystur undan samningi hjá Liverpool gekk Balotelli til liðs við Nice fyrir tveimur árum. Hefur hann einnig leikið með Manchester City, Inter og AC Milan ásamt því að vera hluti af ítalska landsliðinu.

Var hann vongóður um að komast til stærra liðs í Frakklandi og var í viðræðum við Marseille en þær viðræður sigldu í strand. 

Gaf Patrick Vieira, þjálfari Nice, grænt ljós á að Balotelli yrði seldur og barst tilboð frá Kína að sögn forseta franska félagsins.

Sagði forseti Nice, Jean-Pierre Rivere, að hann hefði aldrei séð aðrar eins tölur og buðust Balotelli í Kína en sá ítalski hefði kosið að halda áfram í Evrópu.