Gareth Bale hefur ekki verið ofar í goggunarröðinni hjá Zinedine Zidane, þjálfara karlaliðs Real Madrid í knattspyrnu, á yfirstandandi keppnistímabili. Samband þeirra hefur raunar verið á brauðfótum frá upphafi seinni stjónartíðar Zidane hjá Madrídarliðinu.

Inn í þessi kuldalegu samskipti milli leikmannsins og þjálfarans blandast deila umboðsmanns Bale, Jonathan Barnett, um samningamál. Florentino Perez, forseti Real Madrid er aðdáandi Bale en Zidane er ekki jafn hrifinn af velska vængmanninum.

Bale hefur freistað þess að vekja athygli á því að hann sé ekki að spila með háttalagi sínu á varamannabekk Real Madrid í síðustu tveimur leikjum liðsins. Bale þóttist vera sofandi í leik liðsins á móti Alaves og var svo með alls konar látalæti í sigrinum á móti Granada í gærkvöldi.

Bale sem er fimmti markahæsti leikmaður Real Madrid á þessari öld á eftir Cristiano Ronaldo, Raul, Karim Benzema og Gonzalo Higuain með 105 mörk 251 í leikjum er líklega á förum frá félaginu í sumar. Walesverjinn hefur einu sinni orðið spænskur meistari með Real Madrid og unnið Meistaradeild Evrópu fjórum sinnum.

Frammistaða hans í úrslitaleik Meistaradeildarinnar gegn Liverpool vorið 2018 var eftirminnileg en hann skoraði tvö marka Real Madrid í þeim og annað markanna skoraði hann með frábærri hjólhestaspyrnu.

Bale var nálægt því að elta seðlaan til Kína og ganga til liðs við Jiangsu Suning síðasta sumar en Perez stoppaði þau viðskipti. Kantmaðurinn eldsnöggi er launahæsti leikmaðurinn í leikmannahópi Real Madrid og Zidane gæti vel hugsað sér að nota peningana sem fara í að greiða honum laun í annað í næsta félagaskiptaglugga.

Eftir að hafa spilað fimm klukkutíma og 45 mínútur fyrir Real Madrid á árinu 2020 er spurning hvort að Bale vill sitja út samning sinn á Spáni á tréverkinu eða fara annað í leit að meira tíma inni á vellinum. Svo er spurning hvort að staðan í knattspyrnuheiminum vegna kórónaveirufaraldursins verði til þess að verðmiðinn og launatjékkinn fæli önnur félög frá því að semja við hann.

Real Madrid þarf tvö stig úr síðustu tveimur leikjum sínum í spænsku efstu deildinni til þess að verða spænskur meistari í 34. skipti í sögunni. Real Madrid er sigursælast liðið í sögu deildarinnar með sjö fleiri meistaratitla en erkifjandi liðsins, Barcelona.