Velski landsliðsmaðurinn í knattspyrnu, Gareth Bale, mætti fyrr í dag á æfingasvæði Tottenham Hotspur en hann flaug með einkaflugi frá Madrid í morgun til þess að ganga frá félagaskiptum frá Real Madrid til Lundúnafélagsins.

Bale undirgekkst læknisskoðun í Madrid í gær og gengið verður frá lausum endum hvað samningamaál í dag. Kantmaðurinn eldfjóti fór fyrir sjö árum hina leiðina frá Tottenham Hotspur til Real Madrid fyrir 86 milljónir punda sem var það mesta sem félag hafði greitt fyrir leikmann á þeim tíma.

Með Bale í för var vinstri bakvörðurinn Sergio Reguilon sem er einnig að ganga til liðs við Tottenham Hotspur frá Real Madrid. Reguilon lék sem lánsmaður hjá Sevilla á síðsta keppnistímabil og var valinn bestur í þeirri stöðu í spænsku efstu deildinni.

Tottenham Hotspur fær Bale á láni út yfirstandandi leiktið á meðan Reguilon gerir fimm ára samning við félagið. Forráðamenn Tottenham Hotspur eru að freista þess að Bale og Reguilon sleppi við að fara í sóttkví og geti spilað með liðinu þegar það mætir Southampton í annarri umferð ensku úrvalsdeildarinnar í hádeginu á sunnudaginn.