Millivegalengdahlauparinn Baldvin Þór Magnússon hefur tryggt sér farseðil á heimsmeistaramótið í frjálsum íþróttum innanhúss sem fram fer í Belgrad í mars.

Baldvin tryggði sér þátttökurétt á HM með því að bæta Íslandsmetið í 3.000 metra hlaupi þegar hann hljóp fyrir Eastern Michigan háskólann á móti í Boston um nýliðna helgi.

Þessi 22 ára gamli hlaupari hljóp vegalengdina á 7:47,51 mínútum en fyrra met hans var 7:53,72 mínútur og er því um bætingu um sex sekúndur að ræða. Baldvin bætti Íslandsmetið í 3.000 metra hlaupi tvisvar sinnum á síðasta ári.

Þessi tími Baldvins skilaði honum í fimmta sætið á mótinu í Boston en árið fer vel af stað hjá honum. Á dögunum varð Baldvin fyrsti Íslendingurinn til þess að hlaupa eina mílu á undir fjórum mínútum en hann hljóp þá vegalengd á 3:58,08 mínútum.