Allyson Felix bætti í gær met Usain Bolt á HM í frjálsum íþróttum þegar hún vann tólftu gullverðlaun sín, tíu mánuðum eftir að hafa eignast barn.

Felix var ein tveggja kvenna í blandaðri boðhlaupssveit Bandaríkjanna sem setti heimsmet þegar þau komu í mark á 3:09,34 í Doha, Katar.

Með því er Felix orðin sigursælasta manneskjan í sögu HM utanhúss, tíu mánuðum eftir að hafa farið í bráðakeisara vegna meðgöngueitrunar til að koma dóttur sinni í heiminn á 32. viku.

Hún vann til fyrstu gullverðlauna sinna á HM í Helsinki árið 2005 þegar Felix kom fyrst í mark í 200 metra spretthlaupi.

Felix hefur unnið til gullverðlauna á hverju einasta HM síðan í Helsinki ef litið er framhjá HM 2013 í Moskvu þar sem hún meiddist í úrslitunum í 200 metra hlaupi.

Þá hefur Felix unnið til sex gullverðlauna á Ólympíuleikunum og stefnir á þáttöku í Tókýó næsta sumar.