Mál Gary Lineker og BBC hefur vakið töluverða athygli undanfarna daga en Lineker var settur til hliðar eftir að hann gagnrýndi opinberlega stefnu bresku ríkisstjórnarinnar í málefnum flóttafólks og líkti henni við Þýskaland nasismans. Ákvörðunin um að setja Lineker til hliðar hafði víðtæk áhrif á starfsemi BBC Football um helgina.
Sjálfur segist Lineker ekki ætla að biðjast afsökunar á orðum sínum, hann stæði við þessa skoðun sína.
Dagskrá og umfjöllun BBC Football á öllum miðlum deildarinnar riðlaðist töluvert en samstarfsfólk Gary Lineker stóð þétt við bakið á honum og tók þá ákvörðun að, eftir að hann var settur í straff af BBC, neita að taka til starfa um helgina.
Kynnar, sérfræðingar og lýsendur BBC voru þar á meðal en gegnumgangandi í dagskrá BBC Football um helgina mátti sjá merki þess hvaða áhrif brotthvarf Lineker og samstaða samstarfsfólks hans hafði á hana. Ítrekað var beðist afsökunar á breyttu sniði umfjöllunar um enska boltann í útsendingum BBC um nýliðna helgi.
Margra augu beindust að Match of the Day þættinum þar sem farið er yfir leiki laugardagsins í ensku úrvalsdeildinni, þáttinn sem Gary Lineker stýrir vanalega. Í þetta skiptið var annar maður í brúnni í fjarveru Lineker, hann hóf þáttinn á því að biðjast afsökunar því þátturinn yrði ekki með sama sniði og áður. Lýsendur hefðu ekki verið á öllum leikjum, ekki naut við upphafsstef þáttarins sem var ekki kynntur inn sem Match of the Day, heldur Premier League Highlights.
Þátturinn stóð aðeins yfir í 20 mínútu, ekki voru sérfræðingar í setti til þess að greina leikina en áhorf fór upp um hálfa milljón en rúmlega 2,5 milljónir manna horfðu á þáttinn.
Til að mynda fór Match of the Day 2 markaþátturinn í loftið á sunnudaginn en stóð aðeins yfir í 15 mínútur, umsjónarmaður þáttarins Mark Chapman var ekki viðriðinn þáttinn og ekki mátti heyra í vanalegu lýsendunum lýsa því sem á gekk í leikjum dagsins.
Bein útsending, frá leikjum ensku úrvalsdeildarinnar í útvarpi, fóru fram en Alistair Bruce-Ball, sem lýsti leik Fulham og Arsenal í gær, sagði að um afar erfiða ákvörðun hefði verið að ræða fyrir sig.
„Ég get fullvissað ykkur um að hana hef ég ekki tekið í léttúð, en ég er starfsmaður BBC. Ég er knattspyrnulýsandi í útvarpi fyrir stöðuna og alveg eins og í gær erum við hér til staðar fyrir okkar hlustendur, í ykkar þjónustu.
Hvað tekur nú við í framhaldinu er varðar samband BBC og Gary Lineker er óráðið en Sky Sports greinir frá því að niðurstaða gæti komist í málið á næstu 24 klukkustundum.