HSÍ tilkynnti í kvöld að Axel Stefánsson hefði tekið ákvörðun um að framlengja ekki samning sinn sem þjálfari kvennalandsliðsins í handbolta.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem HSÍ sendi frá sér í kvöld þar sem Axeli er þakkað fyrir störf sín.

Í tilkynningunni segir að Axel telji að kominn sé tími á að fá nýja áskorun á sínum ferli og þakkar samstarfsfólki sínu fyrir samvinnuna.

Axel tók við liðinu sumarið 2016 og undir hans stjórn komst Ísland í umspil upp á sæti á HM í Japan þar sem stórt tap í fyrri leiknum varð Íslandi að falli gegn Spánverjum.

Íslandi tókst ekki að komast á stórmót undir hans stjórn í þremur tilraunum.