David Ornstein, blaðamaður hjá The Athletic, segir að forráðamenn Manchester United muni nú setja aukinn kraft í leit að nýjum knattspyrnustjóra liðsins sem muni taka við af bráðabirgðastjóranum Ralf Ragnick í sumar.

Manchester United náði að rétta úr kútnum fyrir vetrarfrí og situr nú í fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar en þrátt fyrir orð Ragnicks um að hann gæti mögulega starfað sem knattspyrnustjóri liðsins lengur en út tímabilið, segir Ornstein áætlanir forráðamanna Manchester United ekki liggja þar.

Ragnick mun taka við hlutverki ráðgjafa hjá félaginu á tveggja ára samningi eftir tímabilið og samkvæmt Ornstein eru fjórir þjálfarar efstir á blaði hjá forráðamönnum Manchester United.

Heimildir The Athletic herma að ráðningarferil muni fara af stað af krafti á næstu vikum og að þeir Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri PSG, Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Ajax, Luis Enrique, landsliðsþjálfari Spánar og Julen Lopetegui, knattspyrnustjóri Sevilla séu líklegastir til að taka við stöðunni eins og staðan er núna.

Talið er að forráðamenn Manchester United hafi það helst í huga að næsti knattspyrnustjóri liðsins hafi reynslu af því að vinna hjá stóru Evrópsku félagi sem fjórmenningarnir hafa allir.