Fyrsti keppnisleikur Golden State Warriors í hinni nýju og stórglæsilegu höll Chase Center fer fram í kvöld þegar Los Angeles Clippers kemur í heimsókn.

Þetta verður fyrsti leikur Golden State á tímabilinu en Clippers vann fyrsta leik tímabilsins gegn Los Angeles Lakers á dögunum.

Chase Center höllin sem er staðsett í hjarta San Francisco er ein sú glæsilegasta í heiminum og kostaði um 187 milljarða íslenskra króna.

Í myndbandi hér fyrir neðan má sjá innslag um höllina.

Listaverk Ólafs hefur vakið athygli.
fréttablaðið/getty

Fyrir framan einn af aðal inngöngum hallarinnar er að finna listaverk eftir íslenska listamanninn Ólaf Elíasson sem sést á myndinni hér fyrir ofan.

Um er að ræða fimm speglahnetti (e. reflective spheres) og er hver og einn hnöttur tæplega fimm metra hár.

Warriors hefur síðustu 48 ár leikið í Oakland Arena í Oakland, hinumegin við flóann en nú leika Warriors menn listir sínar í miðborg San Francisco.

Á dögunum fór fram einn æfingarleikur til að undirbúa kvöldið í kvöld og þá hafa tónlistarmenn á borð við Elton John, Metallica, Jonas Brothers og The Who komið fram í Chase Center.