Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta vann slakt lið Letta 0-6 í haustlegu veðri í Lettlandi en leikurinn var flautaður af fyrir skömmu. Fanndís Friðriksdóttir, Dagný Brynjarsdóttir, Elín Metta Jensen, Margrét Lára Viðarsdóttir og Alexandra Jóhannsdóttir skoruðu eitt mark hver og Marija Ibragimova markvörður skoraði sjálfsmark undir lok fyrri hálfleiks.

Sigurinn hefði hæglega geta verið stærri en lettneska liðið var ákaflega slakt og bauð upp á lítil sem engin gæði.

Jón Þór Hauksson landsliðsþjálfari var rekinn upp í stúku undir lokin eftir að hafa tekið örlítin trylling undir lokin þegar dómarinn, Vivian Peeters frá Hollandi, dæmdi glórulausa aukaspyrnu á Gunnhildi Yrsu.

Íslenska liðið er með níu stig eftir þrjá leiki eða fullt hús stiga eins og Svíar sem báru sigurorð af Slóvakíu 7-0 á heimavelli. Svíarnir eru með betra markahlutfall.

Stelpurnar skoruðu sex í kvöld.