Þýski bílaframleiðandinn Audi verður með í Formúlu 1 mótaröðinni frá árinu 2026 sem vélaframleiðandi með því að koma inn með sína eigin vél sem verður smíðuð út frá reglugerðunum sem taka gildi fyrir tímabilið 2026.

Liðið mun tilkynni fyrir árslok með hverjum það tekur höndum saman til þess að mynda lið en viðræður hafa átt sér stað milli Audi og Sauber Group sem keppur undir merkjum Alfa Romeo þessa dagana.

Formúla 1 mun frá tímabilinu 2026 taka í notkun nýjar vélar með áherslu á sjálfbærni og hagkvæmari framtíð, mótaröðin er í eigu Liberty Media sem hefur það markmið að gera Formúlu 1 kolefnishlutlausa árið 2030.

Helst ber kannski að nefna að bílarnir munu ekki brenna neinu nýju jarðefnaeldsneyti. Formúla 1 í samtarfi við Aramco hefur staðið fyrir veigamiklum og ítarlegum rannsóknum undanfarið og afrakstur þess er fullkomlega sjálfbært eldsneyti en meira um nýju vélarnar má lesa með því að smella á hlekkinn hér fyrir neðan.

Aðstaða Audi Sport verður í Neuburg í Þýskalandi og það er þar sem vélin verður þróuð áfram. Það verður þá í fyrsta sinn í meira en áratug sem F1 vél verður smíðuð í Þýskalandi.

„Mótorsport er óaðskiljanlegur hluti af erfðaefni Audi,“ sagði Markus Duesmann, stjórnarformaður Audi. „Formúla 1 er bæði alþjóðlegt svið fyrir vörumerkið okkar sem og mjög krefjandi þróunarstofa. Samblanda af mikilli frammistöðu og samkeppni er alltaf drifkraftur nýsköpunar og tækniyfirfærslu í iðnaði okkar. Með nýju reglunum er nú rétti tíminn fyrir okkur að taka þátt. Þegar öllu er á botninn hvolft elta Formúla 1 og Audi bæði skýr sjálfbærnimarkmið.“