Gabonmaðurinn Pierre Emerick Aubameyang hefur tekið við fyrirliðabandinu af Svisslendingnum Granit Xhaka sem missti stöðu sína sem fyrirliði eftir uppákomu í leik Arsenal á móti Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni í knattspynu karla á dögunum.

Unai Emery staðfesti þetta í viðtali sem birtist á heimasíðu Arsenal en þar segist hann hafa tilkynnt Xhaka ákvörðun sína í morgun. Emery segir Xhaka hafa tekið þessum málalyktum vel og sé einbeittur á komandi verkefni liðsins.

Hvorki Aubameyang né Xhaka ferðuðust með Arsenal til Portúgal þar sem liðið mætir Vitoria Guimaraes í fjórðu umferð í riðlakeppni Evrópudeildarinnar á fimmtudaginn kemur.

Talið er að Hector Bellerin muni bera fyrirliðabandið í þeim leik en hann, Alexandre Lacazette og Mesut Özil eru varafyrirliðar liðsins. Auk Aubameyang og Xhaka fá David Luiz og Mesut Özil frí í þessum leik.