Gabonmaðurinn Pierre-Emerick Aubameyang var ónotaður varamaður hjá Arsenal þegar liðið lagði nágranna sinn og erkifjanda, Tottenham Hotspur, að velli í leik liðanna í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla í gær.

Samkvæmt enskum fjölmiðlum var Aubameyang í agabanni vegna þess að hann mætti of seint á liðsfund fyrir leikinn en Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, sagði í viðtölum fyrir leikinn að framherjinn hefði farið yfir strikið og því hefði hann verið á bekknum.

Aubameyang sem á von á sekt frá félaginu fyrir agabrot sitt sleppti því svo að æfa undir stjórn styrktarþjálfara með liðsfélögum sínum eftir leikinn og spurning hvort það muni hafa frekari afleiðingar fyrir hann í framhaldinu.

Arteta sagði hins vegar eftir leikinn að málið væri úr sögunni og nú yrði bara litið fram á veginn. Aubameyang sem skrifaði undir langtímasamning við Arsenal síðasta sumar og verið hefur fyrirliði liðsins er búinn að skora níu deildarmörk í 23 leikjum á yfirstandandi leiktíð.