„Maður hefur verið í þessum sporum áður með félagsliðum en það var draumur að rætast fá að upplifa að setja niður svona sigurkörfu fyrir Ísland, fyrir framan mitt fólk. Þetta var afar sætt. Ég gæti vanist því að gera þetta,“ sagði brosmildur Martin Hermannsson, aðspurður út í sigurkörfu Íslands gegn Sviss í dag í undankeppni EuroBasket.

Martin reyndist afar mikilvægur og setti niður tvær stórar körfur í lokasóknum íslenska liðsins, þar á meðal flotskot yfir miðherja svissneska liðsins.

„Ég veit ekki hvernig fyrra skotið komst alla leið, ég átti von á því að vera blokkaður út úr húsi enda með risavaxinn mann að verja körfuna en við áttum skilið smá heppni eftir leikinn í Portúgal,“ sagði Martin og hélt áfram:

„Þetta var svona stöngin inn leikur. Ég hélt að þetta yrði annar stöngin út leikur þegar stutt var eftir. Tap hérna hefði gert þetta mjög erfitt en þetta vekur okkur aftur til lífsins og veitir okkur sjálfstraust. Við erum með betra lið en Portúgal og eigum að vinna þá á heimavelli um næstu helgi, nú er að byrja á því.“

Martin sagði að leikplan íslenska liðsins hefði farið út um gluggan.

„Leikplanið var að leyfa nokkrum mönnum hjá þeim að fara fyrir sóknarleiknum og þeir voru að hitta úr öllum skotunum sínum sem gerði okkur erfitt fyrir. Það gefur bæði leikmönnunum sem við viljum að sé með boltann sjálfstraust og liðsfélögum þeirra en okkur tókst að breyta um leikstíl og verjast á annan máta.“