Berglind Björg Þorvaldsdóttir, framherji íslenska landsliðsins, lítur svekkt til baka á lokakeppni Evrópumótsins í síðasta mánuði, en segir liðið geta tekið margt gott með sér frá mótinu í mikilvæga leiki sem framundan eru. Framherjinn telur íslenska liðið vera á réttri leið.

Íslenska kvennalandsliðið gerði jafntefli í öllum þremur leikjum sínum í lokakeppni EM á Englandi í síðasta mánuði. Það dugði ekki til að komast upp úr riðlakeppni mótsins og í 8-liða úrslit. Fréttablaðið ræddi við Berglindi Björgu Þorvaldsdóttur, framherja íslenska liðsins, um hennar sýn á gengi stelpnanna okkar, nú þegar tæpar þrjár vikur eru liðnar frá síðasta leik riðlakeppninnar gegn Frakklandi.

„Ég er bara enn þá pínu svekkt ef ég á að vera hreinskilin. Maður hugsar til baka, sérstaklega um Belgíu og Ítalíu leikina, leiðinlegt að geta ekki klárað þá. En þetta var góð reynsla og við tökum þetta með okkur inn í undankeppni HM,“ segir Berglind, en Ísland á einmitt mikilvæga leiki í næsta mánuði gegn Hvíta-Rússlandi og Hollandi í undankeppni HM 2023.

Ísland þurfti að sætta sig við að ljúka leik að riðlakeppni lokinni og horfa á 8-liða úrslitin að heiman. Berglind átti ekki auðvelt með það, sérstaklega ekki er kom að því að horfa á leik Belga gegn Svíum.

„Ég átti bara ógeðslega erfitt með það. Ég gat ekki horft á fyrstu leikina eftir að ég kom heim, var enn með pínu óbragð í munninum. Og að sjá Belgíu spila, þegar mér fannst við eiga að vera að spila, það var mjög erfitt,“ segir Berglind, en Ísland og Belgía gerðu jafntefli í riðlakeppninni, í leik þar sem íslenska liðið var ívið sterkari aðilinn. Hún skoraði einmitt mark Íslands í leiknum.

Berglind sætti sig þó að lokum við stöðuna og horfði á restina af mótinu.„Þetta var bara frábært mót. Á völlunum sem við spiluðum á hefðu stúkurnar alveg mátt vera stærri, en þetta voru geggjaðir vellir. Umgjörðin og allt í kring um þetta var til fyrirmyndar. Það var fullt af skemmtilegum leikjum. Öll liðin eru að taka þvílík skref fram á við í gæðum og öllu.“

Ítarlegra viðtal við Berglindi Björgu má finna í Fréttablaði dagsins.