Íslenska karlalandsliðið í handbolta hóf leik í milliriðlum á heimsmeistaramótinu í dag þegar liðið mætti Sviss í Moustafa-höllinni í úthverfi Kaíróborgar. Lokatölur í leiknum urðu 18-20 fyrir Sviss.

Strákarnir okkar áttu í stökustu vandræðum í sóknarleikum allan tímann í leiknum en þetta tap þýðir að afar litlar líkur eru á því að Ísland komist áfram í átta liða úrslitin.

Ísland mætir Noregi og Frakklandi í næstu leikjum sem eru að berjast um efsta sæti riðilsins en Ísland er með tvö stig eftir fjóra leiki.

Ljóst var að mikið var undir í þessum leik og þó nokkur taugatitringur í leikmönnum beggja liða í fyrri hálfleik sem skilaði sér í litlu markaskori en staðan var 10-9 Sviss í vil í hálfleik.

Það er til marks um það hversu hikstandi sóknarleikur íslenska liðsins og sama skapi vörnin var sterk að tvö marka liðsins skoraði Björgvin Páll Gústavsson með skoti yfir allan völlinn.

Björgvin Páll sem hóf leikinn á bekknum átti einnig góða innkomu í markið hvað markvörslu varðar en hann varði tíu skot í leiknum.

Nikola Portner varði hins vegar 15 skot í marki Sviss og nokkur þeirra voru í upplögðum færum. Þá áttu skyttur íslenska liðsins í þó nokrrum tilfellum erfitt með að skjóta framhjá hávaxinni vörn svissneska liðsins.

Varnarleikur íslenska liðsins var öflugur en líkt og fyrr á þessu móti gekk illa að skila góðri vörn í hraðaupphlaupsmörk hinum megin á vellinum.

Alexander Peterssyni var vísað af velli með rauðu spjaldi í upphafi seinni hálfleiks en annars gekk Íslendingum vel að halda sig réttu megin við línuna þegar kom að brottvísunum.

Um miðbik seinni hálfleiks komst Ísland í fyrsta sinn yfir 15-14 en það var í fyrsta síðan að staðan var 3-2 sem íslenska liðið komst yfir í leiknum en Svisslendingar svöruðu um hæl og skiptust liðin á mörkum næstu mínútur leiksins.

Tveimur mínútum fyrir leikslok náði Sviss svo tveggja marka forskoti í stöðunni 19-17 og var þá ljóst að það yrði gríðarlega erfitt að vinna upp muninn á naumum tíma. Það tókst ekki og ljóst að vonir um sæti í útsláttarkeppni mótsins er orðin fjarlæg.