Atli Steinar Ingason, leikmaður Skallagríms, hefur verið settur í bann hjá félaginu þar til aga- og úrskurðarnefnd KSÍ hefur tekið mál hans fyrir. Hann mun hvorki leika né æfa með félaginu þar til formlegu ferli málsins hjá KSÍ er lokið. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá knattspyrnudeild Skallagríms.

Atli Steinar hefur verið sakaður um kynþáttafordóma eftir hann lét ólíðandi ummæli falla í leik gegn Berserkjum í 4. deild karla síðastliðið föstudagskvöld. Atli Steinar kallaði Gunnar Jökul Johns, leikmann Berserkja, „apakött" og sagði honum að „drullast heim til Namibíu".

„Stjórn Knattspyrnudeildar Skallagríms lítur ummæli Atla Steinars Ingasonar leikmanns meistaraflokks félagsins, sem féllu í leik á móti Berserkjum, mjög alvarlegum augum. Á fundi leikmanna félagsins í gær kom skýrt fram að þeir, sem og þjálfarar og stjórn Skallagríms líða ekki þessa hegðun.

Því mun Atli hvorki leika né æfa með félaginu á meðan agabrot hans er til umfjöllunar hjá aganefnd KSÍ. Knattspyrnudeild Skallagríms lítur svo á, að málið sé í formlegu ferli hjá aganefnd KSÍ sem ber að virða. Frekari ákvörðun um viðbrögð Knattspyrnudeildar Skallagríms verður tekin í kjölfar niðurstöðu aganefnda,“ segir í yfirlýsingu frá stjórn knattspyrnudeildar Skallagríms.