Knattspyrnumaðurinn Atli Guðnason, sem leikið hefur lungann úr ferli sínum með FH, hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna.

Þetta kemur fram í tilkynningu á facebook-síðu FH-inga. Þar segir Atli eftirfarandi um ákvörðun sína:

„Nú er kominn tími til að setja punkt fyrir aftan mjög mörg skemmtileg ár og minningar sem ég mun eiga fyrir lífstíð.

Ég hef verið ótrúlega lánsamur með að taka þátt í velgegninni hjá félaginu mínu og geng mjög stoltur frá borði. Ég er þakklátur
svo ótrúlega mörgum sem gerðu það að verkum að ég náði þeim árangri sem ég náði."

Atli sem er 36 ára gamall hóf að leika með meistaraflokki FH árið 2004 en auk uppeldisfélags síns lék þessi frábæri framherji með HK og Fjölni. Atli varð á ferli sínum sjö sinn­um Íslands­meist­ari með FH og tvisvar bikar­meist­ari með Hafnarfjarðarliðinu.

Hann er leikja­hæsti leikmaður fé­lags­ins í efstu deild frá upp­hafi með 285 leiki og sá fjórði marka­hæsti með 68 mörk. Þá sendi hann 84 stoðsendingar sem er þremur sendingum frá meti Guðmundar Benediktssonar. Þá er hann leikja- og markahæsti íslenski leikmaður í Evrópukeppnum með 11 mörk í 48 Evrópuleikjum.