Það kostar skildinginn að reka knattspyrnulið sem leikur í ensku B-deildinni í knattspyrnu karla, hefur metnað til þess að komast upp í ensku úrvalsdeildina og mistekst það á síðustu stundu. Því eru forráðamenn Aston Villa að kynnast þessa stundina. 

Framkvæmdastjóri félagsins var látinn taka pokann sinn fyrr í vikunni og Tony Xia, eigandi félagsins, tók við þeirri stöðu um stundarsakir. Aston Villa hafði trassað það að borga skattinn í einhvern tima, en félagið hefur hins vegar komist að samkomulagi við skattayfirvöld um greiðslufyrirkomulag á skattaskuldinni.  

Félagið skuldar 2,4 milljónir sterlingspunda í vangoldna skatta, en það samsvarar tæplega 340 milljónum íslenskra króna. Samkomulagið gengur í grófum dráttum út á það að félagið hefur nú þegar greitt 500.000 pund og mun greiða 1.200.000 pund í lok vikunnar.

Talið er að félagið muni svo þurfa að selja verðmætustu leikmenn sína á næstu dögum til þess að eiga fyrir eftirstöðvunum af skattaskuld sinni, en ekkert fjárstreymi er þessa stundina í öðrum tekjustofnun félagsins. John Terry var leystur undan samningi við félagið á dögunum, en spurning er hver framtíð Birkis Bjarnasonar verður hjá félaginu.