Manchester United tilkynnti í gær að Rui Faria myndi yfirgefa félagið og um leið þjálfarateymi Jose Mourinho að tímabilinu loknu en með því lýkur sautján ára sambandi Mourinho og Faria.

Faria hefur verið við hlið Mourinho allt frá byrjun en þeir hafa starfað saman hjá liðum á borð við Porto, Chelsea, Inter, Real Madrid og Manchester United.

Gaf Mourinho Faria fyrst tækifæri þegar hann var aðeins 25 ára en hann hefur verið orðaður við knattspyrnustjórastarf Arsenal undanfarna daga eftir að Arsene Wenger tilkynnti að hann væri að hætta hjá Skyttunum.

Er tímabili hans ekki lokið nú um helgina en Manchester United mætir gamla félagi Mourinho og Faria, Chelsea, í bikarúrslitum um næstu helgi.