Fótboltinn verður blásinn aftur á klukkan 18 í dag með stórslag Íslandsmeistara KR og FH. Klukkutíma síðar hefst viðureign Stjörnunnar og Gróttu í Garðabæ. Engir áhorfendur mega mæta á völlinn en óljósar fréttir bárust fyrripartinn í gær um hvort áhorfendur mættu mæta á völlinn. Í auglýsingu heilbrigðisráðherra var ekkert talað um áhorfendur og var það skilningur íþróttahreyfingarinnar að áhorfendur væru leyfðir. Skrifuðu margir fréttamiðlar fréttir af því og liðin fóru jafnvel að auglýsa leikina á Fésbókarsíðum liðanna. Víðir Reynisson fundaði svo með ÍSÍ og sérsamböndunum í hádeginu og tók af allan vafa. Engir áhorfendur verða leyfðir. Um sinn allavega. Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ, sagði við Vísi að ekki væri ljóst hve lengi áhorfendabannið myndi gilda og að sú ákvörðun yrði mögulega endurskoðuð að viku liðinni.

Þó að áhorfendur verði ekki leyfðir verður sparkað í bolta með leikmönnum og dómurum. Stjarnan, sem hefur aðeins leikið sex leiki í deildinni, er að fara í ævintýralegt prógramm fram að landsleikjahléi. Svo gæti farið að liðið spili við Breiðablik og Fjölni í landsleikjahléinu enda á Stjarnan 16 leiki eftir í deildinni og hugsanlega þrjá í bikarnum fari liðið alla leið í úrslitaleikinn.

Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, segir að hljóðið í leikmannahópnum sé gott þrátt fyrir að mínúturnar séu aðeins 540 sem liðið hefur spilað en þetta reyni á andlegu hliðina. Ekki bara hjá leikmönnum heldur einnig öllum sem koma að liðinu. „Það er mjög skrýtið að eiga 16 leiki eftir í deildinni þegar er kominn miður ágúst og jafnvel og vonandi 19 leiki ef bikarinn er tekinn með. Við höfum reynt að æfa vel og fara eftir þessum viðmiðum eftir bestu getu,“ segir Rúnar.

Hann segir að æfingar hafi verið góðar þó að þær hafi verið skrítnar. Leikmenn hafi mætt klæddir enda bannað að nota búningsklefann þar sem brandarar fljúga og liðsheild verður nánast til. „Andlegi hlutinn er mikilvægur og það er auðvitað slæmt að hafa ekki klefastemningu eins og hún gerist best. Það er einn skemmtilegasti hlutinn af fótboltanum, það sem gerist fyrir og eftir æfingu. Rugla aðeins í mönnum,“ segir hann léttur.

Stjarnan lenti í sóttkví eftir að smit kom upp í liðinu. Og eftir að allt var blásið af aftur segir Rúnar að það hafi verið ákveðið högg. „Þetta er auðvitað búið að vera svolítið sérstakt ár. Það reyndi svolítið á að fara í sóttkví. Það var íþyngjandi þegar allt var stoppað að nýju en við höfum náð að æfa vel og menn virðast vera í góðu standi líkamlega og andlega. Þetta er þó auðvitað erfitt fyrir alla, leikmenn, þjálfara og alla sem koma að þessu. Stuðningsmenn okkar líka, þeir hafa varla náð að sjá okkur.“

Þrátt fyrir aðeins sex leiki er engan bilbug á Rúnari og félögum að finna. Hann segir að allir séu tilbúnir í álagið sem fram undan er. „Nú er geggjað skemmtilegur tími fram undan. Brjálað leikjaálag og þá er mikilvægt að vera með sterkan og góðan hóp. Þetta verður leikur, endurheimt, frí, æfing, leikur og endurtekið. Algerlega stórkostlegt og blússandi gleði.“