Íslenska landsliðið í knattspyrnu hefur leik í undankeppni EM 2024 í næstu viku með tveimur útileikjum. Sá fyrri fer fram í Bosníu og mætir þar heimamönnum.
Völlurinn í Bosníu er erfiður. Leikið er í borginni Zenica, sem þekktust er fyrir alræmt fangelsi. Hluti stúkunnar verður lokaður áhorfendum vegna hegðunar stuðningsmanna Bosníu.
„Völlurinn mun ekki bjóða upp á neinn Brassabolta. Við verðum að setja leikinn upp þannig að við eigum sem mestan möguleika á að fá stig úr honum.
Það er ástæða fyrir því að þeir eru að spila þarna en ekki í höfuðborginni. Þetta er bær sem er þekktur fyrir læti á vellinum. Það verða læti.“
Rúnar Alex Rúnarsson, Elías Rafn Ólafsson og Patrik Sigurður Gunnarsson eru markverðirnir í hóp Íslands. Arnar vill ekki gefa upp hver mun standa á milli stanganna í fyrsta leik.
„Við megum ekki gleyma því að við erum með þrjá markmenn. Rúnar er að spila mjög vel í Tyrklandi. Elías hefur ekki verið að spila mikið en Patrik hefur verið að gera vel. Svo eigum við aðra markmenn líka. Við eigum Hákon (Rafn Valdimarsson) hjá Elfsborg, Frederik (Schram) hjá Val. Það er annar hausverkur fyrir mig. Það getur vel verið að við breytum um markmenn á milli leikja í undankeppninni en það getur líka verið að það verði alltaf sá sami.“