Knattspyrnudeild Breiðabliks hefur boðað til félagsfundar næsta þriðjudag þar sem aðstöðuvandi félagsins yfir vetrarmánuðina verður til umræðu.

Knattspyrnudeild Breiðabliks er sú langfjölmennasta á landinu, með 1.600 iðkendur, og að sögn Orra Hlöðverssonar, formanns knattspyrnudeildarinnar, er aðstaðan komin yfir þolmörk. Álagið á gervigrasinu í Fífunni er sérstaklega mikið og Breiðablik hefur m.a. þurft að leigja aðstöðu af félögum í Reykjavík sem og í Sporthúsinu.

 „Þrátt fyrir að aðstaðan teljist býsna góð miðað við það sem gengur og gerist breytir það því ekki að hún er löngu sprungin,“ sagði Orri í samtali við Fréttablaðið í gær.

Ósk forráðamanna Breiðabliks er að fá upphitaðan gervigrasvöll við hliðina á Fífunni en Kópavogsbær vill frekar leggja nýtt gervigras á gervigrasvöllinn í Fagralundi í Fossvogsdal. Breiðablik tók við þeirri aðstöðu af HK fyrir nokkrum árum. 

 „Við sjáum gríðarlegt hagræði í því. Að dreifa ekki kröftum okkar og starfsemi, vinnuaðstöðu þjálfara og skutli foreldra á alltof marga staði,“ segir Orri um gervigrasvöllinn sem Blika dreymir um. „Það er ekki öll nótt úti enn að okkar ósk verði ofan á. Þetta er bara eins og að reka fyrirtæki á einum stað frekar en 2-3.“

Orri segist vona að Breiðablik þurfi ekki að grípa til örþrifaráða eins og að takmarka fjölda iðkenda hjá félaginu.

 „Það er ætlast til að við tökum endalaust við iðkendum og það er að sjálfsögðu okkar stefna að bjóða alla velkomna. En ef aðstaðan rýmkar ekki er hætta á við getum ekki tekið við öllum þessum börnum,“ segir Orri en í fjölmennustu flokkum Breiðabliks eru um 150 iðkendur.

Orri segir að það hafi einnig komið til tals að leggja gervigras á aðalvöll Breiðabliks. 

 „Það hefur verið rætt en við höfum frekar horft til flatanna við hliðina á Fífunni. Það er ódýrari aðgerð. Það eru skiptar skoðanir á þessu eins og hjá öllum félögum,“ segir Orri að endingu.