Ásmundur Haraldsson hrósaði leikmönnum kvennalandsliðsins fyrir frammistöðuna í gær þegar hann spurði hvernig hann liti til baka á leikinn í gær.

„Frábær frammistaða hjá stelpunum. Að standast áhlaupin hjá Ítölunum. Þær skoruðu mark og fengu möguleika á að taka öll þrjú stigin undir lok leiksins.“

Ásmundur tók undir að eftir tvo leiki væri hægt að hugsa til þess að með smá heppni væru stigin sex en að það væri ekkert gefið á þessu stigi..

„Jú, en það er ekkert sem heitir auðvelt í þessu móti né okkar riðli. Það hafa allar þjóðir fengið að sjá það að það er ekkert gefið í þessu móti. Það er ótrúlega skörp lína á milli. Stöngin út hjá okkur, stöngin inn hinumegin sextíu sekúndum síðar,“ segir Ásmundur sem var ánægður að sjá viðbrögð íslenska liðsins.

„Það sem skiptir öllu máli er hvernig þú bregst við og stelpurnar brugðust ótrúlega vel við. Þær náðu að halda sjó, halda skipulagi og standast áhlaupið. Svo fáum við færi til að taka leikinn.“

Þegar talið barst að varnarleik íslenska liðsins í gær sem var lengst af mjög góður segir Ásmundur ekkert að því að leggja upp með að verjast.

„Við höfum talað um það og lagt upp með það, að liðinu líði vel þegar þær verjast. Það er ekkert því að verjast. Við erum ekkert endilega að koma í þetta mót að vera sjötíu prósent með boltann (e. posession) á móti liðunum sem við erum að spila við,“ segir Ásmundur og bætir við:

„Við erum að spila við góðar þjóðir og meðvituð að við þurfum að spila. Við þurfum að njóta þess, og gera það um leið af fullum krafti. Það sama átti sér stað í Belgíu þegar þær fá vítið, þær voru ekkert að galopna vörnina okkar. Við vissum að við gætum þurft að verjast í langan tíma og gerðum það. Á sama tíma vorum við allan leikinn í færi á að klára þetta, fengum færin til þess.“